Kynning
Country
Choose country:

Allir nemendur eiga að fá tækifæri til að hámarka hæfni sína

Innleiðing hæfnináms

Miklar breytingar eiga sér nú stað í skólastarfi. Margar þjóðir heims eru að endurskoða sínar námskrár og leggja áherslu á hæfninám þ.e. að nemendur öðlist hæfni sem felur í sér þekkingu og færni sem þeir geta yfirfært og beitt í nýjum aðstæðum og þannig skapað nýja þekkingu. Tilgangurinn er að búa nemendur undir líf og starf í heimi sem er að taka gríðarlegum breytingum.

Þekking, leikni, hæfni

Hæfninám kallar á virk samskipti og aukna endurgjöf til nemenda og að mögulegt sé að greina námsframvindu og árangur til að fá skýra mynd af stöðu nemandans. Aukin áhersla á hæfni kallar einnig á meiri einstaklingsmiðun, þ.e. að mæta nemendum þar sem þeir eru staddir til að þeir geti öðlast þá hæfni sem stefnt er að.

Hæfninám breytir því áherslum í kennslu og námi. Þetta er sú áskorun sem InfoMentor hefur verið að takast á við síðastliðin sex ár við þróun nýja InfoMentor kerfisins. Markmiðið er að auðvelda skólum innleiðingu á hæfninámi, styðja við starf kennarans og um leið auka árangur nemenda. Námskráin á að stýra áætlanagerð og námsmati skólanna og því er námskráin hjarta nýja kerfisins.

Aðalnámskrá grunnskóla

Í aðalnámskrá grunnskóla er áhersla á hæfninám, þ.e. að nemandinn öðlist hæfni til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi. „Hæfni er þannig meira en þekking og leikni, hún felur einnig í sér viðhorf og siðferðisstyrk, tilfinningar og sköpunarmátt, félagsfærni og frumkvæði“ (Aðalnámskrá grunnskóla 2011, 25).

Árangursrík innleiðing hæfnináms er umfangsmikið og krefjandi verkefni sem kallar á breytingar í daglegu starfi þúsunda kennara og nemenda. Verið er að breyta kjarnahugsun í skólastarfi yfir í að nemendur séu að stefna að skilgreindum hæfniviðmiðum. Horfið er frá einkunnaskalanum 1 – 10 og innleiddur einkunnaskalinn A, B+, B, C+, C og D. Fyrri skalinn mælir hlutfall af kunnáttu sem nemandi hefur náð, nemandi sem fær 7 hefur þá til dæmis náð að svara 7 spurningum af 10 rétt en einkunnin B lýsir þeirri hæfni sem nemandi hefur náð að tileinka sér.
Komið er inn með lykilhæfni í námi og grunnþættir í skólastarfi eru skilgreindir. Áhersla er lögð á sjálfsmat nemanda og leiðsagnarmat kennara. Þessar breytingar krefjast nýrra ferla, nýrrar hugsunar og nýrra lausna til að gera kennurum kleift að vinna samkvæmt námskrá.

Hæfni nemenda

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að hvaða hæfni er stefnt að með námi nemenda. Samkvæmt aðalanámskrá miðar menntun að því að efla skilning einstaklingsins á eiginleikum sínum og hæfileikum og þar með hæfni til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi. Við viljum sjá einstaklinga sem hafa getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa.

  • Þekking er safn staðreynda, lögmála, kenninga og aðferða. Hún er bæði fræðileg og hagnýt.
  • Leikni er bæði vitsmunaleg og verkleg. Hún felur í sér að geta beitt aðferðum, verklagi og rökréttri hugsun.
  • Hæfni felur í sér yfirsýn og getu til að hagnýta þekkingu og leikni.

(Aðalnámskrá grunnskóla 2011,39)

Hæfnikort

InfoMentor setur fram nýtt hugtak til að auðvelda innleiðingu á hæfnimiðuðu námsmati sem er „Hæfnikort”. Hver nemandi ætti að hafa aðgang að sínu hæfnikorti í öllum námsgreinum. Kennari skipuleggur kennslu út frá hæfnikortum og metur hvar nemendur eru staddir. Með því er hægt að sjá styrkleika nemandans en einnig greina hvaða hæfniviðmið nemandinn þarf að vinna betur með. Í stað þess að fá einkunn á bilinu 0-10 sýnir námsmatið með mun skýrari hætti hvar nemandinn stendur. Kennari, nemandi og aðstandendur fá skýra mynd af stöðu nemanda.

Samræmt námsmat er forsenda gæðastarfs í skólum. Kennarar, nemendur og foreldrar þurfa að skilja stöðu nemandans í náminu og hvað hann þarf að gera til að bæta sig. Það er ekki nægjanlegt að geta greint stöðu mála þegar nemendur eru komnir í 10. bekk grunnskóla.

Lokamat að vori getur verið A, B+, B, C+, C, D eða á forminu „Framúrskarandi, Hæfni náð, Þarfnast þjálfunar, Hæfni ekki náð“. Skólum er skylt samkvæmt lögum að meta nemendur við lok grunnskóla út frá matsviðmiðum sem sett eru fram í aðalnámskrá grunnskóla en hafa frelsi til að móta sitt námsmat í öðrum bekkjum.

© InfoMentor 2019 / Vefsíða frá Bravissimo